top of page

Siðareglur ICF markþjálfa

Siðareglur ICF innihalda fimm meginþætti:

1.   INNGANGUR

2.  SKILGREININGAR

3.  GRUNNGILDI OG SIÐAREGLUR (ICF Core Values & Ethical Principles)

4.  SIÐAREGLUR (Ethical Standards)

5.  HEIT ICF

1. Inngangur

 

Siðareglur ICF lýsa grunngildum, siðferðisreglum og hegðunarreglum fyrir alla félagsmenn ICF (sjá skilgreiningar). Að uppfylla og vinna samkvæmt siðareglum er fyrsta grunnhæfniskrafa ICF: „Sýnir af sér siðferðislega rétta hegðun, skilur og beitir ávallt siðareglum og stöðlum markþjálfunar."

 

Siðareglur ICF eru til að styrkja heilindi ICF og styðja við starfsgrein markþjálfa á alþjóðavísu með því að:

• Setja reglur um hegðun og framgöngu sem eru í samræmi við grunngildi og siðareglur ICF.

• Leiðbeina um siðferðislega hugsun, menntun og ákvarðanatöku.

• Úrskurða um og halda uppi markþjálfunarstöðlum ICF með endurskoðun ICF á siðareglum (ECR).

• Bjóða upp á undirstöðuatriði í kennslu tengdri siðareglum ICF með viðurkenndum ICF námsleiðum.

 

Siðareglur ICF eiga við í öllum samskiptum þar sem félagsmenn ICF eiga hlut að og markþjálfun kemur við sögu. Þetta er án tillits til þess hvort samningur um markþjálfun (sjá skilgreiningar) hefur verið gerður. Með þessum reglum eru siðferðislegar skuldbindingar félagsmanna ICF settar skýrt fram. Félagsmenn geta verið í margvíslegum hlutverkum svo sem markþjálfi, handleiðari, kennari, þjálfari eða nemandi í þjálfunarnámi, eða eru í leiðtogahlutverki ICF; sem og aðstoðarfólk (sjá skilgreiningar).

 

Þrátt fyrir að ferli tengd siðanefnd eigi aðeins við um fagaðila ICF, sem og ICF-heitið (loforð), þá er starfsfólk ICF einnig bundið þeim grunngildum og siðlega framferði sem siðareglurnar kveða á um.

 

Það getur verið áskorun að vinna samkvæmt siðareglum þar sem félagsmenn geta staðið frammi fyrir óvæntum aðstæðum, vafaatriðum og vandamálum, sem þarfnast úrlausna. Siðareglunum er þannig ætlað að styðja félagsmenn með því að sýna og benda á margvíslega siðferðislega þætti sem þarf að huga að og aðstoða þá við að velja þá leið og niðurstöðu sem styður við siðferðilega hegðun og framgöngu.

Félagsmenn ICF sem vinna samkvæmt siðareglunum leitast við að sýna af sér siðferðislega rétta hegðun, líka þegar það felur í sér að taka erfiðar ákvarðanir og sýna kjark.

2. Skilgreiningar​

•  Viðskiptavinur - sá einstaklingur eða hópur sem undirgengst markþjálfunina, sá markþjálfi sem verið er að leiðbeina eða stýra, eða sá markþjálfi eða markþjálfanemi sem er í þjálfun.

•  Markþjálfun - grundvallast á örvandi og skapandi samvinnu við viðskiptavini sem hvetur þá til að hámarka persónulega og starfstengda hæfileika sína og tækifæri.

•  Markþjálfunarsamband  - samband sem stofnað er til af félagsmanni ICF og viðskiptavini/-um/kostunaraðila/- um með samkomulagi eða samningi sem skilgreinir ábyrgð hvers aðila um sig.

•  Reglur - siðareglur ICF

•  Trúnaður - þagnarskylda gagnvart öllum upplýsingum sem koma fram í markþjálfuninni nema leyfi fyrir öðru sé veitt.

•  Hagsmunaárekstur - aðstæður þar sem félagsmaður ICF hefur ólíkra hagsmuna að gæta og að taka einn kost fram yfir annan gæti unnið gegn eða stangast á við aðra hagsmuni. Slíkar aðstæður gætu verið fjárhagslegar, persónulegar eða af öðrum toga.

•  Jafnrétti – aðstæður þar sem allir upplifa sig hluta af hópnum og hafa aðgang að úrræðum og tækifærum, óháð kynþætti, þjóðerni, uppruna, litarhætti, kyni, kynhneigð, kynvitund, aldri, trú, búsetu, andlegri eða líkamlegri fötlun eða annarra þátta sem endurspegla fjölbreytni samfélagsins.

•  Félagsmenn ICF - einstaklingar sem koma fram undir merkjum ICF eða með vottun frá ICF, sem sinna verkefnum sem fela í sér, en eru ekki bundin við, markþjálfun, umsjón með markþjálfum, leiðbeiningar til markþjálfa, kennslu og þjálfun nemenda.

•  Starfsfólk ICF - fólk sem framkvæmdastjórn ICF ræður og veitir faglega ráðgjöf og stjórnsýsluþjónustu fyrir hönd ICF.

•  Innri markþjálfi - einstaklingur sem er ráðinn til skipulagsheildar og sinnir markþjálfun starfsfólks, annaðhvort í hlutastarfi eða fullu starfi.

•  Kostunaraðili - sá aðili (og fulltrúar hans) sem greiðir fyrir markþjálfunina og/eða sér um að hún standi til boða.

•  Starfsfólk félagsmanns - starfsfólk í fyrirtæki eða verkefni félagsmanns ICF.

•  Kerfisbundið jafnrétti - kynjajafnrétti, kynþáttajafnrétti og annað form jafnréttis sem er bundið í siðareglum, grunngildum, stefnum, formgerð og menningu samfélaga, samtaka, þjóða og þjóðfélaga.

3. Grunngildi og siðareglur ICF​

Siðareglur ICF byggja á grunngildum ICF og þeim gjörðum sem af þeim leiða. Öll gildin eru jafn mikilvæg og styðja hvert við annað. Þessi gildi eru metnaðarfull og til þess fallin að skilja og túlka viðmiðin. Þess er vænst að allir félagsmenn ICF endurspegli og sýni þessi gildi í öllum sínum samskiptum.

4. SIÐAREGLUR​

Eftirfarandi viðmið snúa að faglegri háttsemi félagsmanna ICF.

I. hluti - Ábyrgð gagnvart viðskiptavinum

 

Sem félagsmaður ICF mun ég:

1.  Skýra og tryggja að viðskiptavinur/-ir og kostunaraðili/-ar skilji forsendur og mögulegt virði markþjálfunar, eðli og takmarkanir trúnaðar, fjárhagslega tilhögun og aðra skilmála markþjálfunarinnar, hvort sem það er við fyrsta samtal eða áður.

2.  Gera samning/samkomulag við viðskiptavini/-um og kostunaraðila/-um, þar sem tilgreind eru hlutverk, ábyrgð og réttindi allra aðila sem hlut eiga að máli, áður en þjónustan er veitt.

3.  Halda algeran trúnað við alla aðila eins og samið hafði verið um. Mér er kunnugt um og samþykki að hlíta viðeigandi lögum sem lúta að persónuupplýsingum og samskiptum.

4.  Hafa skýrt samkomulag um hvernig upplýsingum er miðlað á milli allra aðila sem hlut eiga að máli meðan á markþjálfun stendur.

5.  Hafa skýrt samkomulag, bæði við viðskiptavini og kostunaraðila eða tengda aðila, um aðstæður þar sem trúnaðarskylda á ekki við (ólögmætt athæfi, ef lög svo krefjast, gildur dómsúrskurður eða stefna; yfirvofandi eða líkleg hætta á sjálfsskaða eða að öðrum verði unnið mein, o.s.frv.). Ef ég hef rökstuddan grun um að einhver af fyrrgreindum atriðum eigi við þá þurfi ég e.t.v. að upplýsa viðeigandi yfirvöld.

6.  Takast á við hagsmunaárekstra eða hugsanlega hagsmunaárekstra við viðskiptavini mína og kostunaraðila, sem innri markþjálfi, með hliðsjón af markþjálfunarsamningi og samtali. Þetta tekur til skipulagshlutverks, ábyrgðar, sambanda, skráningu, trúnaðar og annarra krafna um upplýsingagjöf.

7.  Viðhalda, geyma og farga öllum skrám, þ.m.t. rafræn skjöl og samskipti sem urðu til meðan á faglegum samskiptum stóð, stuðla þannig að trúnaði, öryggi og að persónuvernd sé í samræmi við lög og samþykktir. Einnig legg ég mig fram við að nota nýja og vaxandi tækni sem notuð er í markþjálfun (fjar markþjálfunarþjónusta) á réttan hátt og er kunnugt um þá margvíslegu siðferðisreglur sem um hana gilda.

 

8.  Vera vakandi fyrir merkjum um að viðskiptavinurinn kunni ekki lengur að hafa hag af markþjálfunarsambandinu. Ef svo er, að endurskoða sambandið eða hvetja viðskiptavininn/- na/kostunaraðilann/-na til að leita til annars markþjálfa, viðeigandi fagaðila eða nota önnur úrræði.

 

9.  Virða rétt allra aðila til að slíta markþjálfunarsambandinu hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er meðan á markþjálfuninni stendur, með fyrirvara um samningsákvæði.

 

10.  Vera á verði gagnvart því að hafa margskonar samninga og tengsl við sama viðskiptavininn/-na og kostunaraðila á sama tíma og forðast þannig hagsmunaárekstra.

 

11.  Vera meðvitaður um og bregðast við hverjum þeim valda- eða stöðumun á milli viðskiptavinarins og mín sem gæti komið til vegna menningar, tengsla, sálfræðilegra málefna eða samhengis.

 

12.  Greina viðskiptavini mínum frá mögulegri þóknun og öðrum hlunnindum sem ég kann að hljóta fyrir að vísa viðskiptavinum mínum til þriðja aðila.

13.  Tryggja stöðug gæði markþjálfunar í hvaða sambandi sem er, án tillits til samþykktrar upphæðar eða þóknunar.

II. hluti - Ábyrgð gagnvart starfsemi og frammistöðu

Sem félagsmaður ICF mun ég:​

14.  Hlíta siðareglum ICF í öllum mínum samskiptum. Ef ég tek eftir mögulegu broti á reglunum af eigin hálfu eða hjá öðrum félagsmanni ICF- þá nálgast ég hlutaðeigandi af kurteisi og tek málið upp. Ef það leysir ekki vandann, vísa ég því til þess fagfélags sem ég tilheyri (ICF) til að fá lausn mála.

15.  Krefjast þess að allt mitt starfsfólk framfylgi siðareglum ICF.

16.  Stefna að gæðum þjónustunnar með stöðugri persónulegri, faglegri og siðferðislegri þróun.

17.  Vera vakandi fyrir og viðurkenna persónulegar takmarkanir mínar eða kringumstæður sem gætu skert, brotið í bága við eða truflað störf mín sem markþjálfi eða fagleg sambönd á því sviði. Ég leita eftir stuðningi til að taka ákvörðun og, ef nauðsyn ber til, leita faglegrar aðstoðar. Þetta gæti haft í för með sér að stöðva þurfi tímabundið eða slíta markþjálfunarsambandi/-böndum mínum.

18.  Leysa alla hagsmunaárekstra eða mögulega hagsmunaárekstra með því að vinna að málinu með hlutaðeigandi aðilum, leita faglegrar aðstoðar, stöðva tímabundið eða ljúka hinu faglega sambandi.

19.  Viðhalda persónuvernd félagsmanna ICF og nota upplýsingar um þá (tölvupóstföng, símanúmer o.s.frv.) aðeins með heimild frá ICF eða sem viðurkenndur meðlimur ICF.

III. hluti - Ábyrgð gagnvart fagmennsku

Sem fagmaður ICF mun ég:

20.  Gera nákvæma grein fyrir starfshæfni minni, markþjálfastigi, sérfræðikunnáttu og reynslu sem markþjálfi, sem og viðurkenndum réttindum mínum og vottunum.

21.  Setja fram í ræðu og riti eingöngu það sem satt er og rétt um hvað ég geri sem markþjálfi, það sem ICF býður upp á, starfsgrein markþjálfa og mögulegt virði markþjálfunar.

 

22.  Upplýsa um þær skyldur sem siðareglurnar kveða á um meðal þeirra sem þurfa að þekkja þær.

 

23.  Taka ábyrgð á því að setja skýr og viðeigandi mörk, sem taka tillit til ólíkra þjóðfélagshópa og menningarheima, í öllum mínum samskiptum.

 

24.  Ekki eiga í kynferðislegu eða rómantísku sambandi við viðskiptavin eða kostunaraðila. Ég sýni mikla aðgæslu þegar um er að ræða nánd svo hún sé viðeigandi fyrir markþjálfasambandið. Ég bregst við á viðeigandi hátt til að takast á við málið eða slít markþjálfunarsambandinu.​

IV. hluti - Ábyrgð gagnvart samfélaginu

Sem fagmaður ICF mun ég:

25.  Forðast mismunun með því að hafa óhlutdrægni og jafnrétti að leiðarljósi í allri starfsemi og aðgerðum og virða reglur og menningarvenjur. Þetta tekur til, en takmarkast ekki við, mismunun vegna aldurs, kynþáttar, kyntjáningar, þjóðernis, kynhneigðar, trúar, uppruna, fötlunar eða hernaðarstöðu.

 

26.  Viðurkenna og virða framlag og hugverkarétt annarra og aðeins eigna mér mín eigin gögn. Ég skil að brot á þessari reglu geti leitt til lögsóknar af hálfu þriðja aðila.

 

27.  Sýna heiðarleika og fylgja viðurkenndum viðmiðum, sem henta viðfangsefninu, og starfa eins og hæfni mín leyfir þegar ég stýri rannsóknum og kynni þær.

 

28.  Vera vakandi fyrir áhrifum mínum og viðskiptavina minna á samfélagið. Ég leitast við að „gera gott“ frekar en að „forðast illt“

5. HEIT FÉLAGSMANNA ICF UM SIÐFERÐISLEGA HEGÐUN

Sem félagsmaður ICF, í samræmi við siðareglur ICF, heiti ég því að uppfylla siðferðislegar og lagalegar skyldur mínar gagnvart viðskiptavini/-um mínum, kostunaraðila/-um, öðrum markþjálfum sem og gagnvart almenningi. Brjóti ég einhverjar af siðareglum ICF samþykki ég að félagið geti kallað mig til ábyrgðar. Ég samþykki enn fremur að gerist ég brotleg(-ur) við siðareglur félagsins geti það leitt af sér viðurlög, s.s. að skylda mig til frekari náms í markþjálfun, aðra menntun eða að mér verði vísað úr félaginu og/eða tapi ICF-vottun minni.

 

Uppfært af stjórn alþjóðlegu ICF-samtakanna í september 2019. Íslensk þýðing maí 2020.

bottom of page