Ef þú hefur eitthvað skoðað síðurnar mínar þá hefurðu mögulega séð þessi þrjú orð: Gleði, orka, einlægni. Þetta eru gildin mín, ég vildi reyndar hafa frelsi þarna með upphaflega eða þar til ég áttaði mig á því að ef ég fylgi þessum þremur gildum þá hef ég frelsi!
Til hvers eru þessi gildi?
Ég setti mér gildi fyrst í áfanga í MPM námi í háskólanum í Reykjavík, þar var verkefni þar sem við gerðum faglega og persónulega stefnumótun. Sú vinna varð reyndar aldrei neitt meira en skólaverkefni og féll í gleymsku eftir að áfanganum var lokið. Þar setti ég hógværð, heilsu og forvitni sem persónuleg gildi, en heiðarleiki, skipulag og atorka voru faglegu gildin sem ég valdi mér. Fyrsta línan úr þessu verkefni er: Persónulegt hlutverk mitt er að njóta lífsins og lifa því til fulls, en vita hvenær ég þarf að slaka á og njóta ró og friðar.
Þessi vinna var ekki djúp og mögulega er það ástæðan fyrir því að verkefnið gleymdist. Hins vegar tala þessi gildi öll mjög sterkt til mín og ég tel mig vera að fylgja persónulega hlutverkinu mínu.
Það var svo þegar ég lærði markþjálfun að ég fór í dýpri gilda vinnu og valdi mér núverandi gildi, gleði, orka, einlægni.
Persónuleg gildi eru leiðarljós, orð sem tala sterkt til þín um hver þú ert, hver þú ætlar að vera og hvernig þú kemur fram við sjálfa þig og aðra. Að hafa sterk gildi sem ég tengi vel við hjálpa mér að halda áfram, vera besta útgáfan af sjálfri mér og eru nokkurskonar kjölfesta. Þetta er ég og svona er ég.
Mín gildi
Það var í náminu mínu hjá Profectus sem ég setti mér þessi gildi. Haustið 2020 og nú tveimur árum seinna tala þau sterkt til mín og hafa hjálpað mér að takast á við áskoranir síðustu tveggja ára. Gildavinnan var í formi fjölmargra verkefna, bæði í tímum og í heimanámi. Ég er þannig gerð að ég er fljót að taka ákvörðun um já eða nei, en án aðstoðar og leiðbeininga hefði auðveldlega hægt að mikla fyrir mér þessa vinnu. Námsefnið frá Profectus leiddi mann í gegnum þetta og auðvitað vinna í tímum undir handleiðslu kennara. Einnig fórum við í gegnum bókina Sigraðu sjálfan þig eftir Ingvar Jónsson.
Gleði - lífið á að vera gaman og maður á að gleðjast. Ég sækist í glaðvært andrúmsloft og tækifæri til þess að sjá skemmtilegu hlutina í lífinu. Það þýðir ekki að ég hunsi aðstæður sem eru ekki glaðar eða komi með aulabrandara í alvarlegum aðstæðum. Því lífið er ekki endalaus hlátur og þótt ég sækist í gleði þá get ég sýnt samkennd og mér líður ekki alltaf vel. Hins vegar nota ég gleðina til þess að halda áfram í lífinu og njóta þess áfram.
Orka - ekki bara af því ég er rafvirki (djók). Orka mín, orka annara, orkusveiflur t.d. andrúmsloft. Að taka eftir minni orku gerir mig meira vakandi yfir mínum tilfinningum og mínu ástandi og tek ég orkuna með mér og dreifi henni út í lífið. Hvort sem sú orka sé neikvæð eða jákvæð. En svo er orka líka partur af samskiptum, því ég reyni líka að taka eftir orku annara í samskiptum, það er svo margt ósagt, og það er hægt að læra mikið um sjálfan sig með því að skoða orkuna í kringum okkur.
Einlægni - mér líkar best að geta verið ég sjálf, heiðarleg og komið fram eins og ég er. Mér líkar mjög illa við allskyns baktal, svik, lygar og brot á trausti. Ég legg mig fram við að vera eins einlæg í öllum samskiptum og ég get verið. Sömuleiðis líkar mér félagsskapur þar sem komið er fram við aðra af einlægni. Uppbyggileg gagnrýni sem segir það sem skiptir máli er hluti af einlægni og til þess að geta rýnt til gagns og vera einlægur þá þarf maður traust hópsins. Einlægni hjálpar mér að sitja í sjálfri mér og vera ekki í einhverskonar umróti innra með mér.
Þessi vinna, að finna gildi sín, er áhugaverð vegferð og góð sjálfsskoðun. Ég tel það ekkert óeðlilegt að gildin okkar breytast eftir því sem aðstæður í lífinu breytast. Ég er sátt við gildin mín í dag, en ég mun klárlega endurskoða þau eftir einhvern tíma. Kannski haldast sömu gildin en kannski mun ég skipta einhverju þeirra út fyrir eitthvað annað sem er farið að vega meira í mínu lífi.
Ég býð upp á gildavinnu ef þú kemur í markþjálfun hjá mér ef þú hefur áhuga á að skoða gildin þín, bara senda mér skilaboð eða bóka hér á síðunni.
Comentarios